Hjarðarholtskirkja

Rögnvaldur Ólafsson teiknaði Hjarðarholtskirkju á meðan hann var við nám. Kirkjan er því fyrsta verk fyrsta íslenska arkitektsins. Yfirsmiður var Guðmundur Böðvarsson. Kirkjan er krosslaga með háum turni. Gefinn var út bæklingur með upplýsingum um kirkjuna er hún var endurvígð eftir gagngerar viðgerðir, þar sem hún var færð í upprunalegt horf, 3. nóvember 1996. Biskup Íslands, hr. Ólafur Skúlason, endurvígði kirkjuna.

Viðburðir framundan í Hjarðarholtskirkju

[fusion_events cat_slug=““ past_events=“yes“ order=“ASC“ number_posts=““ columns=“4″ column_spacing=““ picture_size=“cover“ padding_top=““ padding_right=““ padding_bottom=““ padding_left=““ content_alignment=““ content_length=““ excerpt_length=““ strip_html=““ pagination=“no“ hide_on_mobile=“small-visibility,medium-visibility,large-visibility“ class=““ id=““ /]

Fréttir

Nánar um Hjarðarholtskirkju

Kirkjubyggingin:

Rögnvaldur Ólafsson teiknaði Hjarðarholtskirkju á meðan hann var við nám. Kirkjan er því fyrsta verk fyrsta íslenska arkitektsins. Yfirsmiður var Guðmundur Böðvarsson. Kirkjan er krosslaga með háum turni. Gefinn var út bæklingur með upplýsingum um kirkjuna er hún var endurvígð eftir gagngerar viðgerðir, þar sem hún var færð í upprunalegt horf, 3. nóvember 1996. Biskup Íslands, hr. Ólafur Skúlason, endurvígði kirkjuna.

Bænhús:

Kirkja var fyrrum á Svarfhóli í Laxárdal, en er lögð niður eftir 1570. Til er máldagi um hana frá 1470. (Dipl. Isl. V, bls 595.) Syngja á þar 48 messur frá Hjarðarholti eða annan hvern helgan dag. Fyrir það var goldið 2 merkur. Kirkjan var í rómverskum sið helguð Ólafi konungi. Haustið 1997 fannst kirkjugarður á Svarfhóli og hellur sem liggja dýpra en beinin, sem benda til eldri minja. Vísbendingar eru um hleðslu einnig. Kannski er um að ræða eldri kirkju?
Kirkja var og fyrrum í Ljárskógum í Laxárdal.

Í Grettissögu segir: “Um haustit, er á leið, sneri Grettir aftr hið syðra, ok létti eigi fyrr, enn hann kom í Ljárskóga til Þorsteins Kuggasonar, frænda síns, ok var þar vel við honum tekit. Bauð Þorsteinn honum með sér at vera um vetrinn, ok þat þektist hann. Þorsteinn var iðjumaðr mikill ok smiður, ok helt mönnum mjök til starfa. Grettir var lítill verklundarmadr, ok því fór lítt skap þeirra saman. Þorsteinn hafði látið kirkju gera á bæ sínum. Hann lét gera brú heiman frá bænum. Hon var ger með hagleik miklum, enn utan í brúnni undir ásunum, þeim er uppheldu brúnni var gert með hringum, ok dynbjöllur, svá at heyrði yfir til Skarfsstaða, hálfa viku sjávar, ef gengit var um brúna, svá hristust hringarnir. Hafði Þorsteinn mikinn starfa fyrir þessari smíð, því at hann var járngerðarmaðr mikill. Grettir var atgangsmikill að drepa járnit, enn nenti misjafnt, en þó var hann spakr um vetrinn, svá at ekki bar til frásagnar.”

Samkvæmt þessu var kirkjan byggð fyrir árin 1016-18. Kirkjutóftin er rúmlega 9 m. á lengd og 6,5 m. á breidd. Þar hefur verið kirkjugarður, því mannabein hafa fundist. Það sést votta fyrir brúnni. Svo virðist vera sem brúin hafi verið há. Í uppgreftri kapt. Daniels Bruuns og dr. Finns Jónssonar fannst steinn sem lá í kórnum, í austur/vestur, um metri á lengd. Hugsanlega legsteinn. Kirkjan hefur að líkindum verið heimiliskirkja og fljótlega aflögð (12. öld).

Heimagrafreitur er að Dönustöðum. Samkvæmt sóknarlýsingu séra Ólafs Ólafssonar, prófasts í Hjarðarholti, voru víða bænhús í Laxárdal en vitneskja um þau horfin, þó taldi hann bænhús hafa verið á Dönustöðum.
Munnmælasögur eru um að á besta veiðistað í Laxá í Dölum, Kristnapolli, hafi laxdælingar verið skírðir. Það skýrir nafnið og á einnig að skýra hví þessi staður er svo fengsæll. Þingmenn Dala hafa verið skírðir í Krosslaug í Lundarreykjadal árið 999 eða 1000. En almenningur þá í Kristnapolli. Tilvalið var að minnast þess með sérstökum hætti árið 2000 þegar kristnitökuafmælisins var minnst og voru þá tvíburar skírðir við Kristnapoll og var margmenni viðstaddur í blíðskaparveðri. Gaman væri að vita hvort þetta sé eini staðurinn sem vitað er að almenningur var skírður á síðustu ársþúsundsmótum (þúsaldarmótum).

Séra Sveinn Víkingur telur að á þeim stöðum sem kristnir landnámsmenn námu land og leysingjar þeirra, hafi verið reistir kossar og síðar bænhús. Þar hafi síðan verið í töluverðan tíma Guðshús. Slíkir staðir í Dalasýslu eru:

  • Hörðubólsstaður í Hörðudal (Hörður fékk Hörðudal allan út að Skraumuhlaupsá.)
  • Vífilsdalur (Vífill, þræll Auðar, fékk Vífilsdal)
  • Breiðabólsstaður (Sökkólfur, leysingi Auðar, fékk allan Sökkólfsdal)
  • Hundadalur (Hundi, leysingi Auðar, fékk Hundadal)
  • Erpsstaðir (Erpur, þræll Auðar og sonur Melduns jarls, fékk Sauðafellslönd, milli Tungár og Miðár.)
  • Höskuldsstaðir (Dala-Kollur fékk Laxárdal allan og setti bú saman fyrir sunnan Laxá.)
  • Hvammur (Auður djúpúðga nam Breiðafjarðardali.)

Einnig er mögulegt að bæjarheitið Kross eigi við stað þar sem kross var reistur, í öndverðu eða síðar, það á þá við Kross fremst í Haukadal. Örnefnið krosshóll er í 50-100 m. fjarlægð frá gamla bænum á Sólheimum í Laxárdal. Ekki er ólíklegt að á fjörförnum leiðum yfir heiðar hafi verið bænhús eða kross á síðasta bæ. Gæti það átt við Sólheima og Laxárdalsheiði annars vegar og Kross og Haukadalsskarð hinsvegar. Skarð í Haukadal er einnig bær sem var mikill og eðlilegt er að telja hann hentugan fyrir bænhús.

Kirkjumunir:

Skírnarfontur er skorinn í tré af Guðmundi myndskera Kristjánssyni frá Hörðubóli. Silfurskál í honum er gjöf frá kvenfélaginu. Númeratafla er smíðuð af Jóni Guðmundssyni frá Brandagili, Staðarhreppi.
Altaristaflan er máluð af dananum Wilhelm Rosenstand, f. 1838.  Séra Páll Matthíasson, sóknarprestur, keypti hana 1958 á vígsluári gömlu kirkjunnar. Myndin er af kvöldmáltíðinni í Emmaus (Lúk. 24). Taflan á Prestbakka í Hrútafirði er máluð að hluta til eftir töflunni í Hjarðarholti. Altari, prédikunarstóll og grátur eru úr gömlu kirkjunni.

Í Héraðssafni Dalamanna á Laugum er gömul altarishurð úr rómverskum sið úr kirkju í Hjarðarholti.

Þjónustuhús:

Undirbúningur að byggingu þjónustuhússins hófst haustið 2003 með samþykktum sóknarnefndar og samkomulagi við bændurna í Hjarðarholti. Fljótlega var svo ákveðið að skipuleggja jafnframt aðkomu og bílastæði og umgjörð kirkjunnar alla.

Í húsinu er safnaðarstofu um 35 fermetrar að stærð, inngangur, tvær snyrtingar og er önnur m.a. ætluð hreyfihömluðum svo og geymsla fyrir vélar og verkfæri. Húsið er alls tæpir 70 fermetrar að stærð. Í forstofunni er komið fyrir legsteini sem fannst í kirkjugarðinum. Hann er höggvinn um eða fyrir miðja 19. öld úr rauðum Húsafellssteini. Steinninn var brotinn en hefur verið límdur saman og gerð er grein fyrir honum og áletrun hans.

ARGOS ehf. Arkitektastofa Grétars og Stefáns hannaði þjónustuhúsið og Gunnar St. Ólafsson verkfræðingur hannaði burðarþol og lagnir og hafði umsjón með útboði og áætlunum. Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar annaðist raflagnahönnun enHilmar Óskarsson rafverktaki raflagnir. Guðmundur Rafn Sigurðsson framkvæmdastjóri Kirkjugarðaráðs hefur stutt þessar framkvæmdir með ráðum og dáð frá upphafi.

Framkvæmdir hófust haustið 2004 eftir að samið hafði verið við Megin ehf. í Búðardal um byggingu hússins að undangengnu útboði. Snemma árs 2006 var svo ákveðið að ljúka jafnframt öllum framkvæmdum við lóð og útisvæði. Landslag ehf., Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt, skipulagði og hannaði umhverfi kirkjunnar og þjónustuhússins. Samið var við Kol ehf. um þær framkvæmdir en Ari Jóhannesson hlóð veggi og garða.

Um kirkjuna á vef Húsafriðunarnefndar.

Sóknarnefnd:

  • Steinunn Matthíasdóttir, formaður sóknarnefndar
    Sími: 4341105
  • Gísli Þórðarson, sóknarnefndarmaður
    Sími: 4341251
  • Eyjólfur Sturlaugsson, sóknarnefndarmaður
    Sími: 4265568
  • Þrúður Kristjánsdóttir, ritari sóknarnefndar
    Sími: 4341124
  • Guðbrandur Ólafsson, gjaldkeri sóknarnefndar
    Sími: 4341299