Stóra Vatnshornskirkja

Bjarni Óskarsson, þáverandi byggingarfulltrúi Vesturlands teiknaði nýja kirkju og voru yfirsmiðir Davíð Jensson, Reykjavík, Gunnar Jónsson, seinna byggingarfulltrúi í Búðardal og Þorvaldur Brynjólfsson. Grunnur var steinsteyptur, en að öðru leiti er kirkjan úr timbri. Í kirkjunni er söngloft. Kirkjan var vígð 15. ágúst 1971 af herra Sigurbirni Einarssyni, biskup Íslands. Klukknaport var reist 1974.

[fusion_events cat_slug=““ past_events=“yes“ order=“ASC“ number_posts=““ columns=“4″ column_spacing=““ picture_size=“cover“ padding_top=““ padding_right=““ padding_bottom=““ padding_left=““ content_alignment=““ content_length=““ excerpt_length=““ strip_html=““ pagination=“no“ hide_on_mobile=“small-visibility,medium-visibility,large-visibility“ class=““ id=““ /]

Sagan:

Á Stóra Vatnshorni hefur verið sóknarkirkja Haukdælinga svo lengi sem vitað er og hefur að líkindum verið frá setningu tíundarlaga 1096. Kirkjan er fyrst nefnd í kirknatali Páls biskups Jónssonar frá því um 1200.
Kirkjan var ávallt annexía Kvennabrekku. Kirkjur hér höfðu verið helgaðar í rómverskum sið Guði, Maríu drottningu, Andrési, Pétri, Ólafi konungi og Þorláki biskup. Kirkjan var í bóndaeign. Varðveittir máldagar eru frá 1355, 1367 (brot), 1397, og ein frá 1497-1518. Í máldaganum 1355 er prestur heimilisfastur og tekur 3 merkur. Í máldaganum 1397 er heimilisprestur sem tekur 4 merkur. Þar er einnig getið að kirkjunni tilheyri 5 bænhús. Stefán biskup vildi láta Jón Björnsson svara fyrir kirkjunni 1495. Eitthvað hefur ástand mála þá verið ábótavant. Samkvæmt Jarðabók Dalasýslu frá 1731 var embættað að Stóra Vatnshorni annan hvern helgan dag. Eftir 1871 er messað þriðja hvern sunnudag. Kirkjunni hafa goldist í lok síðustu aldar 60 pund smjörs. Torfkirkja var að Stóra Vatnshorni 1853 og í góðu standi 1857.

Gamla kirkjan á Stóra Vatnshorni var dæmd óhæf til viðgerðar 1957. Hún var byggð úr timbri 1877. Þess má geta að prédikunarstóllinn var á sama stað í þeirri kirkju og í Snóksdal.

Bænhús:

Hálfkirkja var á Jörfa í Haukadal. Hún var í bóndaeign, helguð Jómfrú Maríu og helgum krossi. Krossmessa á hausti var 15. september. Aðfaranótt hennar stóð að öllum líkindum Jörfagleðin. Til er jarðarkaupabréf frá 1477. Þar er þess getið að á Jörfa er hálfkirkjuskylt. Árið 1518 eru deilur um greiðslur vegna hálfkirkjunnar. Á Jörfa átti þá að syngja 48 messur frá Vatnshorni, það er annan hvern helgan dag. Fjórir máldagar eru til um kirkjuna frá 1523 og síðar.

Kirkjugarðurinn er um 13 m. að innanmáli. Kirkjurústin er um 3 m. breið og 6 m. löng að innanmáli. Torfveggir eru á þrjá vegu, allt að 50 cm. háir, en timburþil hefur verið á vesturgafli. Þar var inngangurinn.
Séra Þorleifur Þórðarson leggur til í Hvammi 28. júní 1753 að kirkjur á Jörfa og Stórholti séu ekki lengur nauðsynlegar. Jörfakirkja var lögð niður með konungsbréfi 17/5 1765.

Í Héraðssafni Dalamanna á Laugum er að finna veggskáp úr kirkjunni. Einnig er til hurðarhringur í einkaeign úr kirkjunni.

Til Vatnsenda lágu fimm bænhús, en ekki er kunnugt hvar þau voru. Munnmælasögur eru þó um hálfkirkju undir Kirkjufelli í Haukadal (65°03.757N og 021°23.009W – EPE21m.) og á Hofi (milli Hamra og Jörva, fyrir neðan Gálghamar). Samkvæmt fornleifarannsókn sumarið 2009 var rústin ekki bænhús, sem myndin er af, en þó getur bænhúsið verið á öðrum stað á bænum.

Rústir þar við Draugafossa eru nokkuð greinilegar, en svipar mjög til bænhúss og eins staðsetning miðað við bæinn. Rústin er 11*4m. Ekki er þó einróma álit heimamanna að á Kirkjufelli og í Hofi hafa verið kirkjur. Líklega var aðeins hof á Hofi, en þær rústir minna mest á stekk.

Heimagrafreitir eru í Köldukinn og á Litla Vatnshorni.

Munnmælasögur eru um prest sem var að embætta að Kirkjufelli og vatt sér út í fullum skrúða út í Villingadalsá og tók þar upp úr ánni steina þrjá, blessaði þá og nefndi Fullsterk, Hálfsterk og Amlóði. Þessir steinar eru til, en við hlið þeirra er fjórði steininn sem kemur hinum ekkert við. Þessi saga er ekki sú eina sem skýrir frá sögu steinanna.

Kirkjumunir:

Meðal merkra gripa er forn altaristafla úr Hjarðarholtskirkju frá miðri 18. öld. Orgelið er frá 1973.
Í Héraðssafni Dalamanna á Laugum er altari, grátur og prédikunarstóll gömlu kirkjunnar. Þar er einnig ljósastandur.

Sóknarnefnd:

  • Áslaug Finnsdóttir, formaður sóknarnefndar
    Sími: 4341356
    Netfang:aslaugfinns@gmail.com
  • Jóhanna Sigrún Árnadóttir, ritari sóknarnefndar
    Sími: 4341342
  • Sigurður Hrafn Jökulsson, gjaldkeri sóknarnefndar
    Sími: 4341350